DESEMBERDAGAR 2011
8.12. FIMMTUDAGUR
Frost mældist mest -5° í dag. Talsverð snjókoma var í morgun, einmitt þegar Jónas ók með Dóru í flughöfnina. Hún verður í nokkra daga í Belgíu, kemur aftur heim fyrir jólin.
Fuglarnir komu seint í matinn sinn, ég var farin að halda að þeir vildu bara kúra í einhverri holunni. En svo komu þessir venjulegu, svartþrösturinn, skógarþrösturinn og músarrindillinn. Alltaf gaman að fylgjast með þeim.
9.12. FÖSTUDAGUR
Frostið mældist mest -7° í dag. Kaldara er í Hrunamannahreppi, þar er kuldinn víðast hvar -10° og nokkru hvassara en hér um slóðir. Hestarnir taka því með rósemi.
Við hjónakornin fengum okkur gott að borða í hádeginu. Fannst tilefni til að gleðjast yfir umfjöllun Páls Baldvins Baldvinssonar um bók Jónasar í Fréttatímanum í dag. Páll gefur Þúsund og einni þjóðleið fimm stjörnur og segir furðu sæta að bókin skuli ekki vera tilnefnd til Bókmenntaverðlauna. Ekki held ég Jónas telji það skipta máli, heldur að sem flestir átti sig á því að “..þar er færð fram þekking á reiðleiðum um landið sem hér hefur safnast upp á þúsund árum”, svo að vitnað sé til orða Páls.
Ævintýrablær var yfir himni og jörð þegar leið á daginn. Grillti vart í ský á himni, fullur máni bar sig glæsilega yfir Esjunni, ljósin glitruðu frá einu húsi til annars og jólaljós á ljósastaurum. Dýrðlegt umhverfi, þótt kalt sé úti.
10.12. LAUGARDAGUR
Kalt og talsverður vindur. Úrkoma og fjúk öðru hverju. Frost var mest -7°, en minnkaði allt niður í -2° þegar leið að kvöldi.
Þótt kalt væri úti var hlýtt og fjörugt í kotinu. Hingað kom stórfjölskyldan í laufabrauðsgerð, sem á þessum bæ þykir ómissandi. Þriggja var saknað, Pálmi önnum kafinn við rafmagnsviðgerðir, Hera í nýju vinnunni sinni í móttökunni á Hótel Holti, og Dóra í Brüssel að ganga frá ýmsu. Öll hin kepptust við útskurðinn í laufabrauðið. Sérlega gaman hvað allir krakkarnir eru orðnir duglegir að skera út og gera það vel. Boðið var upp á pítsur að loknum útskurði og steikingu, og allt stússið tók ekki meira en fjóra tíma! Voru þó laufabrauðsstaflarnir myndarlegir.
11.12. SUNNUDAGUR
Frábært veður, fallegt og stillt. Ók um á gamla góða Fordinum, sem kvartar ekki bofs yfir frostinu. Fór svo í góða gönguferð meðfram sjónum þar sem fuglar léku sér á bárunum og rósrauð skýin nutu sólarinnar. Svona mætti vetrarveðrið oftar vera.
Nú virðist farið að lifna aðeins yfir Fornuströnd 1, a.m.k. eru komin jólaljós í glugga. Nýju eigendurnir tóku við húsinu í byrjun september og síðan hefur verið borað og barið með miklum látum. Aðallega hefur verið unnið að breytingum í kjallaranum. Þar á að verða hljóðver fyrir húsfreyjuna, söngkonu frá Danmörku.
12.12. MÁNUDAGUR
Sæmilegt veður í dag. Frekar lítill vindur og hiti mældist mest 1°.
Mikið fjör í garðinum, svartþrestir, skógarþrestir og snjótittlingar. Svartþrestirnir reyndu að hrekja hina í burtu, en snjótittlingarnir eru léttir og snöggir og létu þrestina ekki hafa af sér matinn.
13.12. ÞRIÐJUDAGUR
Þokkalegt veður fram eftir degi. Síðan kólnaði og frysti að kvöldi.
14.12. MIÐVIKUDAGUR
Ágætt veður í dag, svolítið hvasst í morgun, en svo bara gott. Frost mældist mest -2°.
Snjótittlingarnir tístu út í garði áður en birti almennilega. Dreifði brauði í matarolíu, korni og eplum, og ekki skorti kostgangarana. Ótrúlega gaman að fylgjast með þeim.
15.12. FIMMTUDAGUR
Svipað veður og verið hefur. Frostið mældist mest -3°.
Jólabækurnar skipta alltaf miklu máli, og í þetta sinn eru margar góðar bækur á boðstólum. Nú hefur verið tilkynnt um bestu bækurnar að mati bóksala. Þar eru valdar þrjár bestu bækurnar í sjö flokkum, m.a. í flokki hand- og fræðibóka. Og viti menn, Þúsund og ein þjóðleið fékk efsta sætið í þeim flokki! Enn ein viðurkenning Jónasar fyrir þessa bók.