Litlu verður vöggur feginn

JANÚARDAGAR 2012

15.1. SUNNUDAGUR

Ágætis veður í dag, mestur hiti 2° og úrkomulaust. Meira að segja sólin kíkti til okkar. Það er langt síðan himinninn sýndi sig, bauð upp á létt ský og sólskin. Reyndar afar skamman tíma, en “litlu verður vöggur feginn”, segir máltækið.

Fengum fjölskyldurnar í hádegissnæðing. Komu öll nema nafna mín, sem var hjá vinkonu. Hér biðu ungmeyjanna í Skildinganesi jólagjafir, sem ekki höfðu komist með þeim á Kaldbak um jólin, og var nú heldur kátt yfir þessari jólaviðbót, sem komu þeim á óvart.

16.1. MÁNUDAGUR

Fallegt var veðrið fram eftir morgni, en síðan tók rigningin við og hamaðist áfram til kvölds. Mestur hiti var 6°.

Fór með Fordinn í stuttan leiðangur og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki alveg í lagi. Brugðum okkur þar með á Ægissíðuna, þar er alltaf vel tekið á móti manni. Þar kom í ljós að bremsuklossar og diskar voru illa farnir. Við fengum góða afgreiðslu, og ég gat sótt bílinn fyrir lokun í dag.

17.1. ÞRIÐJUDAGUR

Leiðindaveður með köflum, svolítið hvasst og hríðarveður öðru hverju. Mestur hiti 2°.

Gyrðir Elíasson skrifar þannig að maður nýtur hverrar línu. Las Sandárbókina í einum rikk, enda enginn vaðall í þeirri bók. Heldur engin læti né stórkarlaumsvif. Textinn býður samt upp á umhugsun og tilfinningar. Góð bók.

18.1. MIÐVIKUDAGUR

Hvasst í dag og talsverð snjókoma. Hiti mældist rétt yfir frostmark um miðjan daginn.

EM-handboltinn er spennandi þessa dagana. Ísland keppti við Noreg í kvöld. Hún var æðisleg. Okkar lið var mestan hluta keppninnar rétt hangandi í Norðmönnum og allt að 4 mörkum undir þegar lokin voru að nálgast. Ég hélt varla við fyrir framan sjónvarpið, en hafði það þó af sem betur fór. Okkar menn unnu, þegar allt kom til alls, með tveimur mörkum yfir að lokum. Frábær endasprettur.

19.1. FIMMTUDAGUR

Kalt en fallegt. Sól og birta um miðjan daginn. Frost var lítið. Úrkomulaust

Snjótittlingarnir eru svo fjörugir og skemmtilegir. Þeir sitja oft uppi á þaki og gjarna á glugganum beint yfir eldhúsinu. Gaman að skoða þá frá þeim vinkli. Reyndar er gaman að virða alla þessa kostgangara fyrir sér, svartþrestina, skógarþrestina, starana og snjótittlingana.

20,1. FÖSTUDAGUR

Það snjóaði talsvert í dag, en hvassviðrið feykti snjónum svo rækilega til að það situr ekki mikið eftir.

Ég stóð að sjálfsögðu rækilega með handboltastrákunum okkar gegn Slóveníu í kvöld, en það dugði því miður ekki baun.

21.1. LAUGARDAGUR

Skínandi fallegt veður í dag. Glampandi sól og lítill vindur. Frost mældist -1° allan daginn.

Fór upp á Valhúsahæðina og naut víðáttunnar, sem sést frá hinni “litlu og lágu”. Glaðvær hróp bárust frá Plútóbrekkunni.

22.1. SUNNUDAGUR

Yndislega fallegt, sólríkt og stillt fram yfir hádegi. En þá dimmdi yfir og fór að snjóa. Gekk svo á með köflum.

Brugðum okkur upp í hesthús og sáum þar inn um glugga aðeins 5 hesta í eigu Svavars. Lykill var frosinn og brotinn í skránni, svo að við komumst ekki inn. Til stóð að kalla til lásasmið svo að hægt yrði að sinna hestunum. Lítið fjör í hesthúsinu. Í fyrra tókst okkur ekki að sækja okkar hesta fyrr en í lok mars vegna fannfergis og hálku. Vonandi gengur það betur í ár.

Okkar menn stóðu sig vel í EM í dag. Unnu Ungverjana 27-21. Spiluðu af miklum krafti og sýndu snilldar takta.