Kári í jötunmóð

JANÚARDAGAR 2012

1.1. SUNNUDAGUR

Áfram bítur kuldinn, en úti er fallegt og fuglarnir eru ánægðir með matinn sem þeir fá í garði okkar.

Hingað komu allir okkar nánustu nema fólkið í Skildinganesi, sem var í veislu hjá foreldrum Sigrúnar þar sem haldið var upp á silfurbrúðkaup. Heimafólk hér hjálpaðist að við hangikjöt og kartöflustöppu, hnetusteik og sitt hvað fleira. Allt frábærlega gott. Enginn fór svangur frá borði og við sátum lengi og skemmtum okkur saman.

2.1. MÁNUDAGUR

Ekki hlýnaði þennan daginn og tók langan tíma að skafa frostið af rúðum bíla.

Fengum gæs í heimsókn. Hún beið sallaróleg hér framan við gluggann og fékk sér öðru hverju sæti. Pétur gaukaði að henni hörðu brauði og ég seinna mjúku brauði, en ekki varð séð að hún gerði mun á gjöfum þeim.

3.1. ÞRIÐJUDAGUR

Skíðafólk er harla ánægt með snjóinn og frostið og streymir í Bláfjöllin. Það má búast við að njóta þess næstu daga. Ég skil gleði þeirra, en vorkenni hestum og fuglum þegar frost og harður vindur þýtur.

4.1. MIÐVIKUDAGUR

Frostið fór í -7° í dag og búist við svipuðum kulda á morgun. Kári er sem sagt í jötunmóð.

Fuglarnir létu lítið á sér bera í dag, kannski voru þeir hræddir við skothvellina frá strákunum, sem eru farnir að búa sig undir Þrettándann.

5.1. FIMMTUDAGUR

Ekki alveg eins kalt og í gær og vindur hóflegur.

6.1. FÖSTUDAGUR – ÞRETTÁNDINN

Veður ágætt með köflum en líka rigning með köflum, sem var ekki alveg jafn ágætt.

Við höfðum afmælismat í kvöld. Dóra á afmæli á morgun, en Þrettándinn hentaði betur. Frábært hangikjöt með kartöflustöppu og grænum baunum og auðvitað laufabrauðinu ómissandi. Sindri og Breki voru að sjálfsögðu mættir til mömmu sinnar í tilefni dagsins og spiluðu við mömmu sína og Pétur fram eftir nóttu! Þetta fólk kann að skemmta sér.

7.1. LAUGARDAGUR

Ágætt veður, frekar stillt og sæmilega hlýtt. Gríðarleg hálka er og féllu æði margir og brutu úlnliði eða ökla á þessum degi.

Og nú er hinn rétti afmælisdagur. Dóra fæddist kl. 7:45 að morgni 7.1.1974 á Fæðingarheimilinu og er því nú orðin 38 ára.

Ég má til með að stela af henni góðum brandara (sem hún er sjálfsagt búin að dreifa til vinahópsins á fésbók sinni): Einar er inn í herberginu sínu þegar mamma hans kallar í hann: Einar!..Einar.. viltu heita brauðsneið?? …smá þögn..”Nei…ég vil bara heita Einar”. (Svona nokkuð þarf maður að geyma!)