JANÚARDAGAR 2012
8.1. SUNNUDAGUR
Rigning og æðibuna mestallan daginn. Reyndar ekki mjög hvasst, takk fyrir það.
Hálfur dagurinn fór í tiltekt eftir hátíðirnar, ég geymi það alltaf fram yfir afmælisdag Dóru til að spilla ekki þeim merkisdegi. Þetta er heilmikið verk, tína allt skrautið af jólatrénu og svona hér og þar, raða dótinu í kassana, sópa upp barrnálarnar, strjúka yfir gólfin og færa húsgögnin til og frá. Pétur gegnir erfiðustu verkunum (að minnsta kosti legg ég ekki í þau), ganga frá öllu varðandi jólaljósin, koma loftljósinu á sinn stað og koma blessuðu jólatrénu til hvíldar.
9.1. MÁNUDAGUR
Engin vonska í veðrinu fram eftir degi, en hríðin lét öðru hverju til sín segja og spillti þar með fuglunum, sem voru að tína upp í sig um miðjan daginn. Veðrið fer versnandi nú að kvöldinu og spáð vonskuveðri í nótt og á morgun, hvað svo sem það gengur lengi. Bílar eru fastir hér og þar um landið, afar slæmt t.d. á Hellisheiði og í Þrengslum vegna ófærðar og slæms skyggnis. Og ekki bætir flugháll klakinn. Björgunarsveitir frá Reykjavík, Hveragerði og Þorlákshöfn eru til taks á heiðunum. Ekki veitir víst af, og svo mun vera víða um land.
10.1. ÞRIÐJUDAGUR
Slæmt veður í dag, hvasst og kalt, él, skafrenningur o.s.frv. Erfitt færi víða og jafnvel á mörgum stöðum gjörsamlega ófært. Veðurguðirnir leyfa fuglunum “mínum” ekki einu sinni að éta allt góðgætið sem ég gef þeim. Snjófjúkið þyrlast yfir garðinn og kaffærir fuglamatinn.
11.1. MIÐVIKUDAGUR
Rólyndis veður í dag. Engin úrkoma fyrr en að kvöldi. Hitastigið við frostmark.
Gaman var að geta gefið fuglunum almennilega í friði fyrir vindi og éljagangi. Garðurinn var þéttsetinn og mikið um að vera.
Fékk loks í dag röskan og þægilegan Pólverja, Tómas, sem tók að sér að lagfæra klósettin báðum megin í húsinu. Veitti ekki af og Tómas gerði vel. Ekki laust við að sitthvað þurfi að laga í okkar góða húsi, sem er orðið 38 ára gamalt!
12.1. FIMMTUDAGUR
Allgott veður í dag, úrkomulaust fram að kvöldi.
Aldeilis gaman að gefa fuglunum í dag. Þrestirnir fylgdust með, meðan ég stappaði snjóinn niður og dreifði brauði, eplum og fuglakorni. Þeir biðu svo ekki boðanna, þegar þeir sáu að allt var klárt, og hófu máltíðina áður en ég var komin inn fyrir. Ég meira að segja staldraði við og spjallaði ögn við þá. Þrestirnir eru orðnir nokkuð öruggir gagnvart mér.
13.1. FÖSTUDAGUR
Hiti mældist mest 6° í dag. Snjórinn flýr smátt og smátt, en harðfrosin hálkan er erfið. Mikið rigndi.
“Trúir þú á töfra?” spyr Vigdís Grímsdóttir í nýjustu bók sinni. Hún fékk mikla aðdáun þeirra sem telja sig dómbæra á vel gerðar bækur. Ég varð fyrir vonbrigðum. Vissulega athyglisverð lesning, en mér fannst þetta langdregið og hálfgert bull.
Þá var nú “jójó”, bók Steinunnar Sigurðardóttur, betri. Vel skrifuð, skemmtileg, sorgleg, hrífandi, áhrifamikil.
14.1. LAUGARDAGUR
Dynjandi rigningin vakti mig síðla nætur. Hún hélt áfram að vinna sitt verk fram eftir degi og snjórinn minnkar æ meira. Enn þarf að gæta sín á flughálum klakanum, en nú er hægt að brjóta hann niður og gera auðveldara að fara um. Það snjóaði pent og ósköp fallega um miðjan daginn.