FEBRÚARDAGAR 2012
1.2. MIÐVIKUDAGUR
Ágætt veður í dag. Mestur hiti mældist 2°. Tungl og stjörnur sýna sig að kvöldinu.
Hesthúsið er ekki mjög líflegt ennþá, aðeins einn hefur komið sínum hestum í hús. Stefnan er að fá hestana okkar í hús á föstudaginn, ef veður lofar. Undirbjuggum allt í dag, þurftum að þrífa rækilega jöturnar og hafa allt klárt.
Góð dagskrá á fundi E.V.G. í kvöld. Mátti til með að hlusta á erindi Sigrúnar Helgadóttur og Hjörleifs Guttormssonar, sem sögðu frá svo mörgu um þann merka mann Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, náttúruverndarmann og vísnaskáld. Mjög góð bæði erindin. Sönghópurinn Jöklabræður fluttu síðan lög við vísur Sigurðar af miklum áhuga og kátínu.
2.2. FIMMTUDAGUR
Leiðinda veður í dag, hvasst og rigning nánast án afláts. Hiti mældist mestur 6° um kvöldið.
3.2. FÖSTUDAGUR
Gott veður mestan part dagsins, þótt öðru hverju væri lítils háttar snjókoma, stöku sinnum smávegis rigning og stundum svolítill vindur. Um kvöldið herti vind.
Við fórum snemma morguns á Kaldbak. Þar var mjallahvítur snjór yfir öllu, en ekki mjög mikill, svo að færðin var alveg sæmileg. Við náðum hestunum okkar 6, Loga, Djarfi, Gauki, Prinsi, Létti og Stormi. Þeir voru fluttir sína leið í hestaflutningabíl og gekk allt ljómandi vel. Þorgrímur járningamaður hófst þegar handa í kvöld.
4.2. LAUGADAGUR
Veðrið var ekki afleitt að deginum. Lítil úrkoma, mestur hiti 3°. Vindinn herti með kvöldinu.
5.2. SUNNUDAGUR
Sæmilegt veður og lítil úrkoma. Um miðjan daginn mældist frost -5°.
Jónas er 72 ára í dag. Falleg blóm prýða hillur og borð til heiðurs afmælisbarninu.
Síðdegis var efnt til ættarmóts með afkomendum Jónasar Kristjánssonar afa og nafna J.K. Samkvæmið fór fram í Austurbergi 1, sem er íþróttahús Leiknis. Fólk kom með kökur og annað góðgæti og var ekki til sparað. Afkomendur kynntu sig og sína, og nokkrir skemmtu með sögum af Jónasi, sem var kunnur fyrir læknisstörf sín, dugnað, hegðun, orð og æði.
6.2. MÁNUDAGUR
Dynjandi rigning og rok mikinn hluta dagsins. Hægðist um nær kvöldinu. Mestur hiti mældist 7°.
Var lengi að bursta hestana og greiða úr töglum og föxum. Þarf að gera betur, þegar ég er búin að jafna mig eftir átökin.
7.2. ÞRIÐJUDAGUR
Verulegt hvassviðri og rigning í allan dag. Mestur hiti 7°.
Átti hreinlega erfitt með að ráða við hurðirnar í hesthúsinu til að hleypa hestunum út. Þeir voru ekkert óánægðir með rokið og rigninguna og notuðu tækifærið til að hreyfa sig. Fékk spánnýtt meðal á Dýraspítalanum, sem á að lækna m.a. hnjóska. Vonandi fær Djarfur bata hið fyrsta. Komst loksins niður úr taglinu á Létti, sem stóð grafkyrr allan tímann.