Eplaveisla í garðinum

DESEMBERDAGAR 2011

1.12. FIMMTUDAGUR

Í dag er fullveldisdagurinn mikli, sem fæstir halda upp á nema helst háskólafólk. Talsverð snjókoma hefur verið í nótt og él öðru hverju í dag. Engin vonska þó í veðrinu. Frost hefur mælst um -°3.

Kom eplum fyrir á gamla góða staðnum hér úti og varð harla kát þegar nokkrir þrestir komu að bragða. Músarrindillinn virðist hafa hreiðrað um sig einhvers staðar rétt hjá og ég skemmti mér við að fylgjast með honum. Hann lítur ekki við eplum, lifir aðallega á skordýrum og virðist laginn við að ná sér í fæðu.

Hef óneitanlega áhyggjur af hestunum á Kaldbak. Þar er lítið að hafa úr snjónum, en sem betur fer fá þeir hey á morgun og ef erfitt er orðið að ná í vatn kemur snjórinn þar að einhverju leiti í stað lækjarvatns.

2.12. FÖSTUDAGUR

Fallegur dagur og stilltur. Mest frost mælist -4° hér í suðvestrinu. Það er kaldara á Kaldbak og þar um kring, -6° til -8° frost. Mjög hált á vegum.

Ævar fór austur í morgun og gaf hestunum tvær rúllur. Höfðu krafsað mikið í jörð og gátu náð sér í einhver strá. Þeir fá meira að vinsa úr næstu daga.

Þrestirnir hafa áttað sig á gjafmildi minni hér, gogga í eplin af mikilli list. Svartþrestirnir telja sér bera heldur meira af þessu góðgæti, hinir sæta lagi þegar færi gefst. Og viti maður, ég hreinlega hitti vin minn músarrindilinn í dag. Hann var ekkert smeikur og ég hef aldrei séð músarrindil jafn nálægt mér.

3.12. LAUGARDAGUR

Enn er fagurt úti og engin læti í veðrinu, engin úrkoma og kátt í Plútóbrekkunni. Frostið mældist mest -4° í dag.

4.12. SUNNUDAGUR

Svipað veður og undanfarna daga, nokkuð þó þungbúið þennan daginn, en engin úrkoma. Undir kvöldið var frostið komið í -6°.

Fer lítið á Fordinum mínum í hálkunni, enda er hann á sumardekkjum. Viðra hann þó daglega eins og aðrir sinna hundum sínum. Málið er að Fordinn verði ekki rafmagnslaus í frostinu.

5.12. MÁNUDAGUR

Sólin kom upp kl. 11:10. Frost -10° um hádegisbil. Veitir ekki af meiri hita á heimilinu. Keypti nokkuð góðan ofn sem kemur sér vel.

Þórður og Sólrún komu í bridds. Mér tókst að gera reginvitleysu og ætlaði varla að ná mér eftir skandalann. Allt fór samt vel að lokum.

6.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki er hægt að lofa neitt góðviðri um þessar mundir. Það er kalt og dálítill vindur. Frostið var mest -6°. Það er harla lítið miðað við Mývatnssveit. Þar er frostið -27,3°.

Fyndnir eru fuglarnir “mínir”, – svartþrösturinn kúrir sig mikið í gljámisplinum þegar hann er búinn að seðja sig. Ef hann fer frá, laumast hinir þrestirnir í krásirnar, en svartþrösturinn þykist ráða yfir eplagjöfunum og kemur til að passa upp á góðgætið. Þarf greinilega að útbúa fleiri matarborð.

Dóra og synir bjuggu til öndvegis mat í kvöld. Ég þyrfti líklega að læra ögn meira í matreiðslu.

7.12. MIÐVIKUDAGUR

Engin úrkoma og frekar stillt veður, en kalt er það. Frost mældist mest -7°.