Hvít jól og áramót í frosti og fjúk

DESEMBERDAGAR 2011

24.12. LAUGARDAGUR – AÐFANGADAGUR

Úfinn var veðurguðinn þennan daginn. Hvassviðri og snjókoma með köflum. Ekki þó verst hér um slóðir. Engin vandræði að njóta dagsins og sérstaklega kvöldsins. Áttum hér góðar stundir með okkar fólki, nema að nú vantaði Pálma, Sigrúnu, Heru, Auði, Kristínu og Áslaugu, sem fannst það mikil tilbreyting að halda jólin á Kaldbak.

Við Jónas munum aldrei að við eigum brúðkaupsdag á þessum merkisdegi. En þennan dag munum við hins vegar vel að þriðji sonur okkar, hann Pétur, kom í heiminn á aðfangadaginn árið 1970. Það var mikill merkisdagur.

25.12. SUNNUDAGUR – JÓLADAGUR

Við Svana höfum lengi haft þann vana að bjóða til skiptis upp á jólakaffi á sjálfan jóladaginn. Alveg ómissandi samkoma. Arnhildur býður nú orðið liðinu í sitt hús svo að hópurinn komist nú áreiðanlega fyrir. Það er svo gaman að hitta fólkið, sérstaklega ungviðið, sem breytist frá einu ári til annars og sýnir nýja takta og skemmtilegheit. Það var gaman hjá okkur, en vissulega söknuðum við hópnum hans Pálma og hópnum hans Óttars, sem var erlendis með konu og synina tvo. En þau misstu af sýningu Breka, sem nú æfir af kappi galdrabrögð, og þótti viðstöddum gaman að.

26.12. MÁNUDAGUR – ANNAR Í JÓLUM

Rólegur og góður dagur. Á slíkum degi gefst tími til að líta á bækurnar sem komu úr jólapökkunum. Er að lesa Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur og líst vel á.

Pálmi og Sigrún sinna hestunum á Kaldbak og veitir ekki af í kuldanum. Þeim líst ekki alveg á aumingja Kára, sem er orðin 25 ára og hefði kannski átt að fella síðasta haust. Aðalmálið er að hestarnir fái nóg að éta, og Pálmi og Sigrún sjá um það af miklum dugnaði.

27.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki afleitt veðrið, en hálka er mikil. Fordinn neitar alveg að hreyfa sig, sem er vafalaust skynsamlegt í fljúgandi hálkunni.

Pálmi og Sigrún gáfu hestunum tvær rúllur og við afar fegin því. Hera þurfti að koma sér heim því vinnan bíður. Gekk vel hjá henni þrátt fyrir hálkuna.

28.12. MIÐVIKUDAGUR

Við Jónas, Dóra, Sindri og Breki fórum upp á Kaldbak og mættum Pálma með sitt fólk á heimleið. Veður var fallegt og gott. Pallurinn var þakinn snjótittlingum, sem voru að gæða sér á ljúffengum afgöngum.

Gaman að koma á Kaldbak. Dóra og strákarnir sáu um matinn og spöruðu ekki góðgætið. Svo spiluðum við Kana og skemmtum okkur vel.

29.12. FIMMTUDAGUR

Heldur var þyngra í veðurguðunum í dag. Nokkuð hafði snjóað í nótt og öðru hverju að deginum. Dóra, Sindri og Breki skemmtu sér lengi vel í snjónum.

Fórum að sinna hestunum og gefa þeim mola, sem þeir eru allir afar hrifnir af. Ég hafði miklar áhyggjur af Kára, en hann bar sig betur en ég óttaðist. Hann var orðin því sem næst laus við klakahrönglin, og flestir hestanna eru með slík hröngl. En öll virðast þau bara vel í holdum, sæmilega feit og borubrött. Vonandi batnar veðrið áður en langt um líður.

30.12. FÖSTUDAGUR

Ekki var útlitið gott þegar við vorum að búa okkur til brottferðar fram eftir degi. Ævar kom upp úr hádeginu til þess að færa hestunum heyrúllur og höfðum við reiknað með að samfylgd Ævars fleytti okkur rétta leið. En þá hafði veðrið versnað, var orðið talsvert hvasst og hríðarhraglandi. Skaflar voru orðnir miklir og viðsjálir. Jónas hringdi í björgunaraðstoð á Flúðum og veitti ekki af þeirri aðstoð. Þeir reyndust okkur vel, enda þaulvanir. Við hefðum ekki komist leiðina okkar frá Kaldbak að Þverspyrnu án þeirra.

31.12. LAUGARDAGUR – GAMLÁRSDAGUR

Sæmilegt veður, mikil hálka, svolítil rigning öðru hverju, hiti yfir frostmark.

Hér var fámennt að þessu sinni. Við Jónas og Dóra sátum hér ein að snæðingi um kvöldið. Sindri og Breki voru með pabba sínum og bræðrum hans, og Pétur og Marcela voru í afmælisveislu hjá Gauta, sem er 40 ára í dag. Ekki vantaði raketturnar og ljósadýrðina meira og minna allt kvöldið, en dýrðin sú hvarf að mestu í mistur og mengun um miðnættið.

Þetta er býsna ólíkt því sem við sveitafólkið í Reykjadalnum nutum áramóta í mínum ungdómi. Við mamma vorum oft tvær einar á áramótum, snæddum lambalæri og hlustuðum á útvarpið. Þar var oftast boðið upp á gamanþætti og mikla tónlist. Og þegar klukkan sló og boðaði nýtt ár var allt með hátíðarbrag. Ég horfði á tunglið og dýrð himins, ef veðrið var gott, og velti fyrir mér því sem gerðist eftirminnilegast á árinu sem var að kveðja. Flugelda sá ég ekki fyrr en ég komin var á þrítugsaldurinn.