JANÚARDAGAR 2012
23.1. MÁNUDAGUR
Fallegt var úti í dag, en vindurinn blés og sá til þess að kuldinn lét okkur finna fyrir því.
Pattaralegur svartþröstur beið þolinmóður eftir matnum og hörfaði ekki einu sinni undan þegar ég kom með epli og brauð. Það truflaði hann ekkert þótt ég hjalaði við hann. Garðurinn fylltist strax af fuglum.
24.1. ÞRIÐJUDAGUR
Allt er hvítt, jörðin, girðingar, trén, víðirunnar, allt rækilega umvafið snjó, ef þannig má orða það. Og bílarnir voru nánast tíndir undir snjónum. Snjór, snjór, snjór. Fallegt er það og sérstakt.
Fuglarnir létu snemma á sér bera í morgun. Ég þurfti að ryðja snjónum frá og gera rennur fyrir mat og fugla. Þeir létu ekki bíða eftir sér. Ég fór síðan að moka af Fordinum, sem var nánast á kafi. Sá þá að húsþakið var hreinlega þakið snjótittlingum. Svo flugu þeir upp allir í einu og voru öruggleg a.m.k.100.
Katrín á afmæli í dag. Við heimsóttum hana og fjölskylduna á Birkigrund. Notalegt og skemmtilegt.
25.1. MIÐVIKUDAGUR
Enn bætist í snjóþykknið hér í suðvesturfjórðungnum, en meira er það og verra víðar. Hér er snjórinn þéttur og fallegur, en ekki beint þægilegt að komast leiðar sinnar. Ekki er mjög kalt, frostið mældist mest -2° í dag.
Meðan enn er glóð – heitir bók sem ég var að lesa eftir norskan rithöfund, Gaute Heivoll. Bókin fjallar um brennuvarg og fólkið á svæðinu. Þar kannast allir hver við annan og tortryggnin magnast. Vel gerð bók.
26.1. FIMMTUDAGUR
Enn hleðst snjórinn upp. Erfið nótt og fram eftir degi fyrir þá sem eru að baksa gegnum snjóskaflana. Lítil úrkoma í dag. Nokkuð hvasst. Frost mældist mest -7°. Himinninn skartaði sínu fegursta um miðjan daginn.
Þurfti að taka á við moksturinn úti í garði til að geta fóðrað fuglana. Alltaf jafn gaman að fylgjast með hópnum.
Spiluðum bridds við Þórð og Sólrúnu í kvöld. Ég var óþarflega djörf og tapaði frekar hressilega. Samt mjög gaman.
27.1. FÖSTUDAGUR
Nú er það rigningin, mikil rigning. Það er hvasst af suðaustan. Búist er við asahláku víða um land næstu daga. Hiti mælist um 2° hér.
Mér leiðist rok og rigning. En kosturinn er sá í þetta sinn, að nú gat ég losað Fordinn úr snjóbingnum.
28.1. LAUGARDAGUR
Enn rignir hann og mun ausa regninu enn meira yfir okkur á næstunni. Veðrið hefur verið hvasst í dag, og mestur hiti mældist 6°.
29.1. SUNNUDAGUR
Nokkuð gott veður í dag. Mestur hiti 6° og ekki mjög hvasst. Öðru hverju rigndi lítillega.
Lítið ber á snjónum, sennilega hvað minnst hér á Seltjarnarnesi. Fuglarnir eru fegnir að losna við snjóinn og ánægðir með að geta kroppað eftir vild eins og þeir eru vanir. Talsverðir afgangar eru handa þeim í garðinum, en þeir litu ekki við þessu í dag. Sá aðeins einn snjótittling spígspora þar um og gogga í brauð og kurl.
Dóra hefur unnið af mikilli elju í gær og dag við að rýma til í kjallaranum og geymslunni, tína saman dót og drasl, sem ekki mun gagnast héðan af. Ég þóttist hjálpa smávegis til. Maður heldur alltaf að hitt og þetta gæti einhvern tíma komið að gagni. En það gleymist oft með tímanum, ryðgar og skemmist og verður gagnslaust. Sindri og Breki hjálpuðu til við að koma draslinu í Sorpu. Þurfti þrjár ferðir. Þetta er mikil hreinsun.
30.1. MÁNUDAGUR
Heldur kaldara en í gær, en ágætis veður að öðru leiti. Mestur hiti mældist 2°. Lítil úrkoma.
Í dag var gengið frá sölu okkar á Kaldbak. Ævar og Ingibjörg keyptu jörðina og húsin. Við söknum vissulega staðarins og allt okkar fólk, sem hefur átt þar góðar stundir. Hestarnir okkar verða áfram á Kaldbak.
31.1. ÞRIÐJUDAGUR
Grenjandi rigning nánast án afláts í allan dag. Mestur hiti 5°. Talsverður vindur hér og enn meiri á Hellisheiðinni og víða á leiðinni upp á Kaldbak. Búast má við mikilli rigningu a.m.k. til hádegis á morgun. Hestarnir bera sig ekki illa, en þeir þiggja glaðir molana góðu. Vonandi verður febrúar ögn blíðari við skepnur og menn.