Bitur reynsla í Reykjadal

Þá er ég aftur komin á mölina eftir mánaðardvöl í sveitinni minni fyrir norðan. Dvölin sú var að flestu leyti ánægjuleg, veður frábært flesta daga, mikil sól og blíða og margt hægt að gera. Og ekki síst var gaman hversu mörg úr stórfjölskyldunni gerðu sér ferð norður í Varmahlíð þar sem öllum finnst gott og gaman að vera.

Einn skugga bar á sveitasæluna að þessu sinni, svo stóran að mér finnst ég og systkini mín hafa orðið fyrir miklu ranglæti og í rauninni lítilsvirðingu af hálfu sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar og stjórnar Framhaldsskólans á Laugum. Öll atburðarás þess máls sýnir hvað manneskjan er vanmáttug gagnvart stjórnsýslunni sem ákvarðar og framkvæmir að eigin vild þrátt fyrir háværar og tíðar yfirlýsingar um vilja til að tryggja rétt almennings.

Sem ég nýkomin norður sat sallaróleg og hamingjusöm í heita pottinum í sundlauginni góðu á Laugum og rabbaði við nágrannakonu dembdust yfir mig þau tíðindi að nú ætti að fara að byggja 2 einbýlishús rétt framundan Varmahlíð, þar sem okkur hafði áður verið sagt að ekkert slíkt stæði til. Á heimleið úr sundinu sá ég hvar 3 menn röltu fram og aftur um blettinn rétt við túnfótinn í Varmahlíð, bentu í allar áttir og veltu augljóslega fyrir sér aðstæðum til vegalagnar og bygginga.

Ég flýtti mér heldur betur á fund sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og komst að hinu sanna um þessi áform og ennfremur að enn lifðu 3 dagar af þeim fresti sem gefinn hafði verið til athugasemda. Skall þar hurð nærri hælum þar eð ekkert okkar systkina, eigenda Varmahlíðar, hafði veitt athygli auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi í landi Laugaskóla, enda höfðum við enga ástæðu til að ætla að við þyrftum að vera á varðbergi.

Eftir athuganir af ýmsu tagi og samráð við systkini mín skilaði ég athugasemdum okkar á skrifstofu sveitarfélagsins, þar sem við lögðum til að tillögunni yrði hafnað og aðrar jafngóðar eða betri lóðir fundnar handa væntanlegum húsbyggjendum. Við lýstum því að okkur þætti nærri okkur höggvið með því að ætla 2 byggingum stað svo nálægt Varmahlíð og bentum á að gildi lóðar og húss mundi rýrna verulega ef af þessum byggingum yrði, þær kæmu til með að gjörbreyta og skerða útsýni frá Varmahlíð og jafnframt gjörbreyta sýn til Varmahlíðar.

Skömmu síðar kom í ljós mér til undrunar að skólameistari FL hafði fengið athugasemdirnar sendar og brugðist snarlega við skriflega. Fékk ég þær athugasemdir til aflestrar og fannst það ekki góður texti, heldur einkennast af nokkrum hroka og óbilgirni og reyndar misskilningi í sumum atriðum. Setti ég því saman annað bréf til sveitarstjórnar og afhenti fyrir fund hennar þar sem málið var til umræðu og afgreiðslu.

Einn sveitarstjórnarmanna þáði heimboð í Varmahlíð með þökkum og taldi sig hafa verulegt gagn af heimsókninni. Því miður gat hann ekki setið fund sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins. Við ræddum við fleiri fulltrúa í sveitarstjórninni og fannst þeir sýna skilning og vinsemd, en ekki varð fundið að þeir vildu kanna málið frekar. Enginn þeirra hafði frumkvæði að viðræðum við okkur vegna athugasemda okkar og ekki varð vart við neins konar athuganir af hálfu fulltrúa í skipulags- og umhverfisnefnd sveitarinnar, sem mæltust einfaldlega til þess að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Þann texta gerði sveitarstjórn að sínum og sá ekki ástæðu til að svara athugasemdum okkar systkinanna ítarlegar en þar kemur fram. Aldrei var reynt að ræða mögulegar lausnir til sátta í málinu sem sýnir kannski best stöðu okkar gagnvart þeim sem valdið hafa.

Ekki var svarað endurteknum athugasemdum um lóðir á öðrum svæðum í landi Laugaskóla og engin tilraun virðist hafa verið gerð til að leita uppi staðfestingu þess að við hefðum áður verið fullvissuð um að ekki yrði byggt nær Varmahlíð en þegar hefur verið gert. Enginn rökstuðningur felst í því að segja “Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús”, eins og segir í fundargerðum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar, ekki síst með tilliti til þess að fæstir fulltrúanna hafa nokkurn tíma komið í Varmahlíð og metið málið frá því sjónarhorni. Athugasemd um skógrækt til samanburðar vekur furðu.

Í pistlinum hér á undan, SÓTT AÐ VARMAHLÍÐ, eru birtar athugasemdir okkar bæði hinar fyrri og síðari, einnig athugasemdir skólameistara og liður úr fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar, sem sveitarstjórn tók upp orðréttan í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt.

Þannig var ferill þessa máls sem spillti annars einkar góðri sumardvöl í Varmahlíð. Hugsanir mínar og aðgerðir þessa heitu sumardaga snerust óneitanlega mikið um þetta mál og hvað væri hægt að segja og gera.

Þetta var bitur reynsla. Mér leið á stundum eins og ég hefði orðið fyrir ofbeldi og það var ekki góð tilfinning.