Sjónarspil við ströndina

Tvo hundaeigendur hitti ég í dag sem kvarta sáran yfir erfiðleikum við að fá hundana til að fara út að pissa í vonda veðrinu. Slíka erfiðleika þekkjum við ekki hér á bæ. Moli er alltaf jafn kátur að komast í gönguferð og gildir einu hvort sólin skín eða snjónum kyngir niður.

Snemma í morgun vaknaði ég við drunur hafsins við ströndina. Það var hásjávað langt fram eftir morgni og brimið þeytti sjónum langt upp á land fram með Norðurströndinni og öllum Grandanum. Í Ánanausti var mikill viðbúnaður lögreglu vegna sjávargangsins og Eiðisgrandanum var lokað nær hádegi enda þá orðið ófært vegna grjóthnullunga.

Við Moli drifum okkur í langa gönguferð eftir sjávarströndinni og áttum bágt með að slíta okkur frá þessu magnaða sjónarspili hafsins. Þvílíkur heljarkraftur. Og sums staðar þurftum við að stökkva undan pusinu. Við sáum aðeins tvær manneskjur alla leiðina og þessar tvær stigu út úr bíl til að skoða hamfarirnar. Mér finnst þetta ótrúlega hrífandi þótt ég sé í rauninni smeyk við hafið í slíkum ham.

Umhleypingar vetrarins taka vissulega á taugarnar og ég er ekki viss um að ég væri jafn dugleg að njóta veðursins ef ég hefði ekki hann Mola litla. En ég finn að það gerir manni gott að takast á við veður og vind, rok og rigningu, snjó og ófærð. Og ekki er þörf að kvarta þegar alltaf er jafn gott og styrkjandi að fara í sund og klæða sig í útiklefanum hvernig sem viðrar.

Það eina sem verulega angrar mig er að komast ekki á Kaldbak til hestanna. Þangað hefur alllengi verið ófært og vonlaust að koma þangað kerru til að sækja nokkra hesta. Góðir menn komast þangað á sérbúnum bílum og gefa hestunum nóg að éta, en stíurnar þeirra bíða tómar í Víðidal.