Ekki af baki dottin!

Hestaferð sumarsins var mjög skemmtileg eins og reyndar allar hestaferðir okkar sem ég kann ekki lengur tölu á. Í þetta sinn fluttum við hestana okkar á norðausturhorn landsins og könnuðum lendur Þingeyjarsýslna, aðallega þó Norðursýslunnar og enduðum í Suðursýslunni eftir tveggja vikna ferðalag. Ferðalangar voru aðallega 13 að meðtöldum Sigfúsi Almarssyni, sérvöldum trússara og eðalkokki. Ferðina skipulögðu Jónas og Finnur af stakri snilld. Aðrir voru við Fanney, Haidi og Níels, Reynir, Ingólfur, Guðjón og Guðný, Guðrún og Þóra. Þá var annar Guðjón með í förinni fyrri vikuna, auk þess sem vinir og vandamenn , s.s. Þorbjörg, Guðlaug og Kristján, stungu sér inn í hópinn dag og dag eftir hentugleikum.

Við lögðum upp frá Leirhöfn í Öxarfirði 23. júlí, riðum framhjá Grjótnesi og Núpskötlu í Blikalón, þaðan Blikalónsdal og Austursléttuheiði austur fyrir Raufarhöfn, síðan vestan Bláskriðu og Fjallgarðs og yfir fjallaskarð niður í Þistilfjörðinn. Frá Flautafelli í Þistilfirði riðum við upp með Svalbarðsá í Laufskála, þaðan norður á Öxarfjarðarheiði um Hrauntanga að Efrihólum og síðan austan við Valþjófsstaðafjall og Þverárhyrnu og með Sandá að Bjarnastöðum. Við vörðum nokkrum dögum í nálægð Jökulsár á Fjöllum og nutum fegurðar og mikilfengleiks landslagsins, riðum meðfram Jökulsánni bæði að austan og vestan, stundum í fylgd heimamanna eins og víðar á leiðinni. Svo var t.d. alla leið úr Svínadal vestur í Þeistareyki, þaðan suður að Gæsafjöllum og vestur á Hólasand að Geitafelli og síðan í Laxárdalinn. Lokaáfanginn var svo 5. ágúst yfir heiðina meðfram Hvítafelli og niður í Reykjadal.

Allt gekk þetta stórslysalaust og raunar mjög vel. Nokkuð var um flugferðir knapa sem meiddust þó ekki að neinu gagni. Ég reyndi að monta mig af því að hafa sloppið við allt slíkt, en ferðafélagarnir minntu þá á að ég hefði rækilega séð um þann þátt í ferðinni sumarið áður, þegar Prúði mínum tókst að fleygja mér þrisvar af baki. Í þetta sinn sem sagt var ég ekki af baki dottin.

Við Jónas vorum með 8 hesta, Kára, Loga, Garp, Djarf, Létti, Gauk, Prins og Storm talda í aldursröð, elstur er Kári 21 vetra, yngstur Stormur 9 vetra. Þeir stóðu sig allir mjög vel og komu heilir heim, líka Djarfur sem reyndar heltist af sparki í lend og fékk nokkurra daga frí. Blessaðir trukkarnir mínir hefðu mátt vera ögn rennilegri, þeir Gaukur og Prins kunna sér ekki magamál, en ekki vantar þá dugnaðinn og kraftana. Enginn bilbugur var á Kára þrátt fyrir aldurinn, hann er alltaf jafn jákvæður og glaður í langferðum. Og gaman er að finna Storm sífellt eflast að færni og dugnaði.

Við gistum á eyðibýlum, í fjallaskálum, á gistiheimilum og í skólahúsnæði og enduðum í félagsheimilinu á Breiðumýri sem kallaðist reyndar þinghús í mínu ungdæmi. Gaman var að gista eyðibýlin Oddsstaði og Harðbak, þótt nokkuð skorti á þægindin, rúmin með gamla laginu og alltof stutt fyrir lappalanga liðið, en andrúmsloftið bætti upp það sem á skorti í þeim efnum. Þá var sérstakt að gista á Geitafelli þar sem ég þekkti sumt fólkið þaðan í gamla daga. Fjallakofarnir hafa sinn þokka þar sem oft skapast alveg sérstök stemmning með söng og kátínu og hvergi annars staðar var líflegar sungið úr Melrakkabók Ingólfs. Listakokkurinn okkar kann hins vegar betur að meta aðstæður í ögn þróaðri húsakynnum.

Við hittum fjöldann allan af góðu fólki um allar sveitir sem greiddi götur okkar á margan hátt. Kunnugir sögðu okkur til vegar og margir fylgdu okkur einn og einn dag til að tryggja að við rötuðum bestu leiðirnar. Einar, Silli, Árni, Halldór, Rúnar, Böðvar, allir gerðu sitt til að auka á gildi ferðarinnar. Ekki veit ég t.d. hvernig þeir félagar Finnur og Jónas, svo glúrnir og ratvísir sem þeir annars eru, hefðu átt að rata um Þeistareykjaheiðina í dumbungsveðri þar sem ótrúlega margar götur krossa hver aðra, en Böðvar og Rúnar vísuðu veginn.

Í Miðtúni í Leirhöfn var okkur eitt kvöldið boðið til veislu sem verður í minnum höfð. Þar voru linnulaus ræðuhöld, mikil sönggleði og varðeldur að áliðnu kvöldi. Gaman var að kynnast því hvað afkomendur Helgu Sigríðar Kristinsdóttur og Árna Péturs Lund sýna foreldrum sínum og þeirra gömlu heimkynnum mikla ræktarsemi. Og ekki var verra að komast að því að Norður-Þingeyingar eru ekki minni á lofti en Suður-Þingeyingar!

Landslagið, gróðurfarið og hófvænar reiðgöturnar glöddu ferðalangana og ýmislegt kom okkur á óvart. Flest okkar höfðu skapað sér ákveðna mynd af þessum slóðum og bjuggust við einhæfara og gróðursnauðara umhverfi en í ljós kom. Eftirminnilegt er landslag og gróðurfar undir Fjallgarði og sérlega fallegt var að ríða upp með Svalbarðsá þar sem bakkar og hólmar eru gróðri vafðir, grávíðirinn vöxtulegur og víða mikið blágresi sem puntaði heldur betur upp á víðirunnana. Eftirminnilegur er dagur á austurbakka Jökulsár undir leiðsögn Halldórs á Bjarnastöðum sem sýndi okkur ótal staði sem við hefðum varla fundið hjálparlaust. Þá var mjög sérstakt að koma fram á heiðarbrún í Laxárdal ofan við Kasthvamm og ríða niður í þennan fallega dal sem eitt sinn var vel byggður en er nú fáum setinn.

Þannig á ég margar fallegar myndir í huganum frá þessari ferð. Ein sú fallegasta er af himbrimanum á Kringluvatni austan Laxárdals, hann sparaði ekki fögur sönghljóð fuglinn sá. Er hægt að hugsa sér öllu ljúfara en að ríða góðum hesti eftir dúnmjúkri reiðgötu með angan heiðagróðurs í vitunum og hlusta á konsert himbrima syndandi í sólskininu um spegilslétt vatnið?