Enn og aftur gýs upp umræða um byggingu og rekstur fleiri álvera á Íslandi. Rætt er um álver á Bakka við Húsavík, álver í Helguvík á Reykjanesi og álver í Þorlákshöfn að ógleymdum endalausum hugmyndum um stækkun í Straumsvík og á Grundartanga. Nú síðast var vitnað til bæjarstjórans í Reykjanesbæ sem segir álver í Helguvík á næstu grösum, undirbúningi sé nánast lokið og framkvæmdir gætu þess vegna hafist í næsta mánuði. Álversfíklum er ekki við bjargandi.
Ekki minntist Árni Sigfússon bæjarstjóri á nein vandkvæði við orkuöflun né umhverfisáhrif og ekkert ræddi hann um virkjunarhugmyndir á Hellisheiði sem tekist var á um fyrir örfáum mánuðum. Þaðan af síður virtist hann muna að fjöldi fólks gerði athugasemdir við umhverfismat vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar og tók undir kröfu Landverndar um heildstætt mat vegna álvers í Helguvík. Í slíku mati þarf að skoða alla þætti, álver, orkuöflun á hinum ýmsu stöðum, orkuflutning með háspennulínum eftir ýmsum leiðum, hafnarframkvæmdir og flæðigryfjur.
Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar hefur sagt óraunhæft að framkvæmdir við álver í Helguvík geti hafist í næsta mánuði og rétt að bíða með allar yfirlýsingar þar til niðurstaða úr kæru Landverndar á umhverfismatinu liggur fyrir. Bergur bendir sérstaklega á að ólíklegt verði að teljast að sátt verði um hvernig orkan yrði flutt til álversins.
Stjórnmálamenn hafa látið til sín heyra og birtist afstaðan eftir nokkurn veginn hefðbundnum nótum. Mesta athygli vekur vandræðagangur Samfylkingarinnar sem lagði mikla áherslu á umhverfismál í aðdraganda síðustu kosninga og gaf út sérstakt rit um þann málaflokk undir því háleita nafni “Fagra Ísland”.
Fullyrðingar Árna bæjarstjóra eru ekki síst einkennilegar í ljósi þess að á liðnu hausti kynnti stjórn Landsvirkjunar þá ákvörðun sína að hún mundi “…ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi.”
Yfirlýsing Landsvirkjunar vakti gífurlega athygli og var m.a. rædd á Alþingi. Þar viðurkenndi Geir H. Haarde að þessi ákvörðun þýddi það að óbreyttu að ekki yrði reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver á Suðvesturlandi. Og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði orðrétt: “Ekki verða fleiri ný álver á þessum hluta landsins á næstu árum og missirum, það liggur ljóst fyrir eftir þessa ákvörðun.”
Í athugasemd frá Náttúruverndarsamtökum Íslands í morgun er minnt á þessi orðaskipti á Alþingi og sett fram sú krafa að ráðherrar standi við orð sín. Í athugasemdinni segir m.a.:
“Af yfirlýsingum ráðamanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga virðist sem svo að þessar yfirlýsingar forsætis- og viðskiptaráðherra fyrir þremur mánuðum hafi fallið í gleymsku. Á hinn bóginn hafa talsmenn Samfylkingarinnar kosið að tjá sig ekki um fyrirhugað álver í Helguvík þrátt fyrir að ráðamenn fyrirtækisins hyggist hefja framkvæmdir án starfsleyfis, án tilskilinna leyfa til losunar gróðurhúsalofttegunda og án þess að úrskurður umhverfisráðherra um heildstætt mat virkjunar- orkuflutninga og álversframkvæmda liggi fyrir. Að sama skapi liggur enn ekki fyrir loftslagsstefna ríkisstjórnar Íslands.
Samfylkingin boðaði nýja umhverfisstefnu fyrir kosningar s.l. vor og kynnti áform um stóriðjustopp þar til fram hefði farið Rammaáætlun um náttúruvernd og sættir náðst um frekari virkjanauppbyggingu. Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, gengisfelldi þessa stefnu strax eftir kosningar með því að hafna því að afturkalla rannsóknarleyfi í Gjástykki sem forveri hans, Jón Sigurðsson, veitti einungis tveimur dögum fyrir kosningar án lögboðinnar aðkomu umhverfisráðuneytisins. Vitaskuld þvert á kosningaloforð síns flokks. Þar með tók Össur ábyrgð á spillingu Framsóknarflokksins.
Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu til ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar að þeir standi við orð sín og veiti þjóðinni andrúm til að meta náttúruverndargildi þeirra svæða sem orkufyrirtækin sækjast eftir að eyðileggja. Jafnframt ber forsætisráðherra skylda til að standa við þau orð sem hann flytur þingi og þjóð.”