Enn einu sinni brugðum við okkur í skíðaferð í útlöndum dagana 26. janúar til 2. febrúar. Mér telst svo til að slíkar ferðir séu nú orðnar átta alls og alltaf eru þær jafn skemmtilegar. Fyrstu tvö skiptin fórum við til Lech í Austurríki, en svo ákváðum við að fara hinum megin Alpanna og prófa brekkurnar sem bjóðast í ítalska skíðabænum Madonna di Campiglio og höfum síðan haldið tryggð við þann stað.
Madonna hefur marga kosti. Bærinn er lítill, telur um 700 íbúa sem byggja allt sitt á þjónustu við skíðafólk og að einhverju leyti göngufólk á sumrin. Við förum alltaf á svipuðum tíma rétt áður en aðalskíðatíminn hefst fyrstu heilu vikuna í febrúar. Bærinn er prýddur jólatrjám og hvers kyns jólaskrauti fram eftir öllu ári sem okkur þætti óviðeigandi hér heima, en passar ágætlega í þessum jólalega fjallabæ. Hrikaleg fjöll ramma inn bæinn og geyma kletta og skóglendi með skíðabrekkum af öllu tagi inn á milli. Snjóframleiðslutæki í hundraðavís varða brekkurnar, en í þetta sinn var nægur snjór og engin þörf fyrir gerfisnjó.
Vikan leið með nokkuð hefðbundnum hætti. Við tókum það fremur rólega fyrsta daginn til að reyna að komast hjá harðsperrum, en fljótlega gleymist öll varúð í þeim efnum. Þriðja daginn var farin hópferð með fararstjórum til nágrannabæjanna Marileva og Folgarida. Þangað er yfirleitt farið einu sinni í hverri viku og mjög gaman að takast á við brekkurnar þar. Veðrið var frábært, heiðskírt og tært loft sem tryggði okkur magnað útsýni af hæstu toppum. Alltaf jafn gaman að koma á þessar slóðir, enda man ég hreinlega ekki til þess að veður og færi hafi brugðist í þeim ferðum.
Veðrið var reyndar heldur kaldara en oftast áður og kallaði á tíðar heimsóknir í fjallakofanna, sem eru nú reyndar engir kofar, til að fá sér súpuskál eða sötra heitt kakó með rjóma. Einn daginn þvældist fyrir okkur þykk þoka, en við létum hana ekki eyðileggja daginn og kosturinn við þokuna var óvenju fátt fólk í brekkunum.
Við gistum á Hubertus, þægilegu hóteli þótt herbergin séu lítil og svolítið þreytuleg enda komin til ára sinna. Hótelið er í miðbænum, stutt að fara í eina af aðallyftunum, stutt í skíðaleigu og allt annað sem á þarf að halda. Morgunverðurinn er fjölbreyttur og ríkulega útilátin, m.a.s. boðið upp á tertur og annað sætabrauð í morgunsárið fyrir þá sem þola slíkt svo snemma dags.
Margir Íslendingar gista á Hubertus og er vel tekið af frúnni sem ræður ríkjum. Þar gistir t.d. ár hvert fullorðinn maður, nú tæplega áttræður. Hann er einn á báti og byrjaði skíðamennskuna eftir að hann fékk skíði frá systkinum sínum á sjötugsafmælinu. Hann er alltaf 2 vikur í senn og stundar brekkurnar af miklum dugnaði nema í þoku, segist ekki öruggur þegar hann sjái ekki hót. Mér verður hins vegar hrollkalt að sjá hann berhöfða á skíðunum.
Það er kostur að Hubertus býður ekki upp á kvöldverð og því hægt að prófa hina ýmsu staði í bænum. Le Roi er mjög vinsæll og líflegur staður, góð þjónusta og ágætur matur. Annar góður er Antica Focolare, en allra besta matinn er að fá á Alfiero. Matur og þjónusta er þar í hágæðaflokki, en verðið leyfir aðeins eina heimsókn á ári.
Ferðafélagarnir voru að vanda þau Ingibjörg Bjarnadóttir og Ævar Guðmundsson, en einnig hittum við gamla kunningja frá fyrri ferðum þau Svanhildi Gunnarsdóttur og Sturlaug Filippusson. Þessi góði hópur borðaði saman öll kvöld og skemmti sér frábærlega saman.