Sitt er hvað Frón eða Flórída

Fátt er líkt með gamla Fróni og bænum Naples í Flórída. Veður, umhverfi, gróðurfar, húsnæði, skólar, verslanir, allt er með ólíku sniði og mætti lengi áfram telja. Ég var kölluð til verka í þessum ameríska bæ í september og var þar í þrjár vikur, hefði reyndar þurft meiri tíma til að kynnast þessu öllu betur. Ég átti harla bágt með að afbera hitann og rakann og daglegt þrumuveður var oft spennandi, en stundum ansi ógnvænlegt fyrir manneskju sem heyrir þrumur í mesta lagi einu sinni á ári.

Naples er snyrtilegur bær á vesturströnd Flórída við Mexíkóflóann. Þar er flugskóli sem nokkrir Íslendingar hafa sótt og þar stundar dóttir mín flugnám. Og þar búa nú þau Dóra, Sindri og Breki í snotru og þægilegu húsi í vernduðu hverfi og flest þægindi innan seilingar. Bíll er þó algjör nauðsyn á hverju heimili. Almenningssamgöngur eru ekki málið á svona stað, en skólabörn geta þó nýtt sér skólabíla þótt margir foreldrar kjósi heldur að sjá sjálfir um að koma börnum sínum í skólann – þveröfugt við hér þar sem verið er að reyna að fá börnin til að ganga í skólann sinn.

Ástæðan fyrir óvæntu ferðalagi mínu til Naples var sú að blessaðir dóttursynirnir áttu harla bágt fyrstu vikurnar í amerískum skóla þar sem kennsluhættir eru talsvert frábrugðnir þeim íslensku. Agi og allar venjur eru ólíkar og kröfur meiri en börn í íslenskum skólum eiga að venjast. Skiljanlega er það erfitt ungum börnum að vera allt í einu sett í skóla þar sem þau skilja lítið af því sem sagt er og eiga bágt með að tjá sig.

Svo hittist á að einmitt þegar þeir Sindri, 9 ára síðan í apríl, og Breki, sem verður 7 ára í nóvember, voru að hefja skólagöngu í Laurel Oak Elementary School, var sérlega mikið að gera hjá Dóru sem var að ljúka æfingum og prófum fyrir einkaflugmannsréttindi sem hún gat ekki ýtt til hliðar til þess að aðstoða drengina sína í skólanum. Það reyndist þeim erfitt og Breka reyndar ofviða, svo að amman einfaldlega skellti sér út með dags fyrirvara og settist á skólabekk með Breka til að létta honum fyrstu vikurnar. Svo lengi lærir sem lifir segir máltækið og þetta var mikil og merkileg reynsla.

Eftirlit í Laurel Oak er mikið og rækilega fylgst með öllum. Ég þurfti að mæta á skrifstofu skólans hvert eitt sinn, sýna passa, gera grein fyrir erindinu og fá sérstaka merkingu í barminn. Ef koma barnanna í skólann er með einhverjum öðrum hætti en venjulega verður að gera rækilega grein fyrir því og eins að skólatíma loknum. Að morgni stilla þau sér í einfaldar raðir og bíða þess að aðalkennarinn leiði þau til sinnar stofu. Þaðan er þeim fylgt í skipulagðri röð til matsalar um hádegisbil eða til sérkennslu í tölvudeild, í leikfimi, söngtíma, listatíma eða á bókasafn. Nemendur fara ekki út í frímínútur eins og hér tíðkast, enda er loftslagið yfirleitt mun þolanlegra í bekkjarstofunum en utan dyra. En það er skondið að fylgjast með þessum krakkastrollum þrammandi milli stofa og allt að því heraga beitt til að enginn skjóti sér út úr sinni röð.

Mikill agi ríkir í skólastofunum og ríkt eftir því gengið að nemendur fylgist með. “One two three, eyes on me”, segir kennarinn og ætlast til að allir horfi og hlusti á hann/hana. Það reynist erfitt þeim sem lítið eða ekkert skilja í málinu. Nokkur barnanna í bekknum hans Breka eiga spænsku að móðurmáli, eitt þeirra portúgölsku og eitt rússnesku og svipað mun vera í mörgum hinna bekkjanna. Þau fá reyndar góða hjálp tveggja kennara sem fara á milli bekkja og allt kemur þetta smám saman.

Þrjú íslensk börn eru í öllum skólanum og vekja talsverða forvitni, ekki vegna þess að þau séu svo frábrugðin, heldur er það landið sem virðist vera mjög dularfullt í huga flestra. Breki sló algjörlega í gegn þegar hann sýndi bekkjarfélögunum myndir af íslensku landslagi, sem þeim fannst ótrúlega merkilegt og ekki síður kennaranum sem fór á flug að útskýra fyrir börnunum eldgos og hveri.

Lestur, skrift og reikningur skipa háan sess, en mörgu öðru er skotið inn á milli, ekki síst uppeldisfræði. T.d. er lögð áhersla á að börnin sýni ekki aðeins kennaranum virðingu, heldur einnig hvert öðru. Þau eiga að fylgjast með og mega ekki trufla hvert annað og getur það oft reynst sprækum börnum erfitt. Þau læra að sýna tillitssemi og vinna úr misklíð eftir ákveðnum reglum og var merkilegt að fylgjast með því. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt barn í þessum skóla komist nokkurn tíma upp með einelti í annars garð. Börnin læra að sýna ábyrgð, skiptast t.d. daglega á um að gegna ýmsum hlutverkum, hjálpa kennaranum, vera dyraverðir o.s.frv. Kennararnir eru nokkuð strangir og kröfuharðir, en þeir eru líka ósparir á hrós og verðlaun sem greinilega skipta miklu máli.

Mér fannst mjög gaman að kynnast þessu öllu, þótt margt væri framandi og jafnvel óþægilegt. Ég tók með mér myndavél í skólann þegar brottför nálgaðist og tók í grandaleysi myndir bæði af umhverfinu og börnunum. En það reyndist ekki vel séð. Skólastjórinn kom til mín og leiddi mig í allan sannleika um það að í Laurel Oak mætti ekki taka mynd af neinum án leyfis. Til þess að geta myndað í skólastofum dóttursona minna yrði ég að hafa formlegt undirritað leyfi foreldra hvers einasta barns.

Sinn er siður í landi hverju, það lærði ég m.a. þessar vikur í Naples á Flórída. Skemmtilegast er þó að kynnast því hvað börn eru fljót að læra nýtt tungumál og aðlagast nýjum aðstæðum.