Að týna næstum því heilum sólarhring úr lífi sínu er ekki notaleg reynsla. Það fékk ég að reyna fyrir skemmstu.
Flesta morgna ársins stunda ég þá firnagóðu líkamsrækt að synda og hef gert það árum saman. Oftast verður Neslaugin fyrir valinu, enda í næsta nágrenni. Ég fer í útiklefa, geri æfingar fyrir fætur og bak í sturtunni, teygi á hálsvöðvum í heitum potti, syndi þúsund metra skriðsund, bringusund og baksund til skiptis og slaka loks á í notalegum nuddpotti. Við svo búið finnst mér ég í góðu formi til að takast á við verkefni dagsins. Það brást hins vegar að morgni laugardagsins 13. október.
Laugardagsmorgnar eru svolítið sérstakir því þá hittumst við Svana systir mín gjarna í Neslauginni og þá bætist við spjall um atburði vikunnar. Stundum er ekki nógu notalegt að hanga í barnalauginni og þá ljúkum við spjalltímanum í 38 gráðu pottinum. Það gerðum við einmitt þennan laugardagsmorgun. Í þetta sinn varð þó setan venju fremur löng, enda vikan óvenju viðburðarík, og þegar við stigum upp úr pottinum fann ég að eitthvað voru fæturnir þungir og ekki laust við svimakennd í kollinum. Ég bar mig auðvitað eins mannalega og ég frekast gat og snaraðist undir sturtu í útiklefanum, en þar með lauk öllum virðuleika og íþróttamannslegum þokka því nú sortnaði mér fyrir augum og fætur sviku.
Ég var svo heppin að detta beint í fangið á systur minni og njóta síðan umönnunar hennar og fleiri góðra sundkvenna svo og starfsfólks og síðan læknis og sjúkraflutningsmanna, svo að lokum varð ekki þverfótað fyrir fólki í litla útiklefanum. Þar reyndist stærsti vandinn að koma þessari máttlausu og meðvitundarlitlu konu út úr klefanum og á sjúkrabörur, sem komust engan veginn inn um fáránlega hannaðar dyr útiklefans. Við útiklefanotendur höfum löngum hlegið að þessari asnalegu hönnun, en nú kom í ljós að hún er ekki aðeins hlægileg, heldur beinlínis hættuleg. Væri ég ögn þéttari á skrokkinn hefðu blessaðir karlarnir aldrei komið mér fyrir horn á hurðinni sem opnast upp að vegg inn í klefann!
Lá nú leiðin á slysavarðstofuna í Fossvoginum, en ekki get ég lýst atburðarásinni frekar þar sem öngvitið varð nánast algjört eftir að í mig var dælt einhverju sem dugði til að reka burt ógleðina og önnur herjans ónot. Sitthvað mun hafa verið gert næstu klukkustundirnar til að kanna ástand mitt, en ég vissi ekki einu sinni af því þegar ég var send í heilaskönnun, ef ég hef tekið rétt eftir í frásögn læknis næsta dag.
Snemma á sunnudagsmorgni rankaði ég við mér og hlustaði næsta kastið á ergelsi konunnar í tjaldinu til vinstri við mig og stunur karlmannsins í tjaldinu hægra megin. “Veistu hvað kom fyrir þig?”, spurði læknirinn hann. “Nei”, stundi maðurinn. “Það var ekið á þig”, sagði læknirinn. “Shit”, sagði aumingja maðurinn, sem ég las síðar í einhverju blaðinu að hefði uppskorið brotin bein þessa örlaganótt.
Ég fékk hafragraut og mjólk, kaffi og brauð með osti áður en ég var send heim. Ég hefði víst betur innbyrt slíkar kræsingar áður en ég fór í sundið sólarhring fyrr.
Af reynslu er rétt að draga lærdóm, og sá lærdómur sem ég bætti nú í safnið mitt er að fara ekki í sund á fastandi maga og eyða ekki of miklum tíma í heita pottinum, jafnvel ekki þótt Friðrik Sóphusson sé mættur þar og hafi fréttir að færa af sinni ágætu eiginkonu, Sigríði Dúnu, sem nú gegnir störfum sendiherra (Sirrý Dúna “herra”!) í Suður-Afríku.
Þessa mun ég gæta héðan í frá. Það er svo fjári ónotalegt að týna næstum því heilum sólarhring úr lífi sínu.