Fiskar, brauð og skilvinda

Mér finnst alltaf jafn gaman að fylgjast með spurningaþáttum í sjónvarpi hvort sem boðið er upp á Útrás eða Gettu betur á RUV, Meistarann á Stöð tvö eða Skarpari en skólakrakki á Skjá einum. Oft hafa líka verið góðir spurningaþættir í útvarpi og nú hefur t.d. þátturinn Orð skulu standa gengið á Rás 1 árum saman, enda býsna sérstakur og skemmtilegur.

Nú er hafin árleg úrslitalota Gettu betur í sjónvarpinu og má ég helst ekki af honum missa. Að vísu eru ópin og skrækirnir í stuðningsliðunum hvimleið, en þá er bara að vera snögg með fjarstýringuna. Sömuleiðis er til baga hversu erfitt er oft að heyra svör keppenda við hraðaspurningunum og mætti stjórnandinn alveg gera hlustendum þann greiða að lesa upp réttu svörin þegar æðibunugangur keppenda er yfirstaðinn.

Liðin sem keppa til úrslita hafa vitneskju um hina ótrúlegustu hluti og tefla fram sérfræðingum um íþróttir og teiknimyndasögur, rokk og raunvísindi, bíómyndir og mannkynssögu svo að eitthvað sé nefnt. Athyglisvert er að sitthvað úr gamla tímanum stendur gjarna í blessuðu fólkinu að ekki sé nú minnst á landafræði Íslands. Hún virðist sem lokuð bók framhaldsskólanemum sem vita meira um forseta Bandaríkjanna aftur í aldir en um fjöll og bæi á Fróni.

Viðureign Kvennaskólans og MH sl. föstudag var afar spennandi og tók greinilega á taugar keppendanna. Þegar úrslitin loks réðust var allt að því aumkunarvert að fylgjast með keppendunum. Fyrirliðinn í liði Kvennaskólans virtist að gráti kominn og einn liðsmanna MH lá lengi eins og sprungin blaðra yfir stólbakið. MH–ingar reyndust sigurvegarar með eitt stig yfir eftir bráðabana. Úrslitin hefðu þó allt eins getað orðið Kvennaskólanum í vil því bæði liðin höfðu svar við úrslitaspurningunni, en MH-ingar voru sneggri á bjöllunni.

Eftir þessa spennandi viðureign urðu svo sárindi og eftirmál. Kvennaskólaliðið situr í sárum eftir rangan dóm um fjölda fiska og brauða sem Jesús notaði til að metta 5000 manns samkvæmt biblíunni. Dómarinn viðurkennir mistök, en liðið fær enga leiðréttingu. Um þetta er mikið fjallað í fjölmiðlum og á bloggsíðum, en minna um það að MH-ingar þurftu einnig að sæta mistökum dómarans, sem ekki vildi gefa þeim rétt fyrir að kalla skilvindu skilju. Mér fannst raunar bæði liðin illa að sér að þekkja ekki orðið skilvinda, en MH-ingar giskuðu á að þetta gagnmerka tæki héti skilja og Íslensk orðabók er sátt við það. Liðin standa því í raun jöfn gagnvart mistökum dómarans.