Mér til mikillar ánægju var eitt þingmála minna samþykkt á háttvirtu Alþingi 10. mars sl. Það var tillaga til þingsályktunar um kortlagningu ósnortinna víðerna. Tillagan er í raun framhald af þingmáli, sem samþykkt var fyrir tveimur árum um varðveislu ósnortinna víðerna og jafnframt að völdum starfshópi yrði falið að skilgreina þetta hugtak sem farið var að nota talsvert án þess að ljóst væri hvað við væri átt. Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir að víðernin yrðu síðan kortlögð, en það var fellt út í meðförum þingsins, fyrst og fremst vegna kostnaðar. Nefnd um skilgreiningu hugtaksins skilaði niðurstöðu fyrir rúmu ári og það hefur nú öðlast sess í lögum um náttúruvernd.
Í framhaldi af því fannst mér nauðsynlegt að þessi svæði yrðu kortlögð svo að okkur væri fullljóst um hvað væri að ræða, og á það hefur nú Alþingi fallist með samþykkt sinni. Það er fagnaðarefni vegna þess að ósnortin víðerni eru dýrmætur fjársjóður, sem ekki einasta nýtist okkur til skoðunar og lífsfyllingar, heldur er einnig mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem við viljum að Ísland hafi í samfélagi þjóðanna.
Í tengslum við störf skilgreiningarhópsins var unnið gróft yfirlitskort sem gefur vísbendingar um þau svæði sem talist gætu ósnortin víðerni samkvæmt tillögu starfshópsins. Hins vegar verður ekki hjá því komist að kortleggja þessi svæði nákvæmlega til þess að styrkja varðveislu þeirra og leggja grunn að nýtingu þeirra sem mikilvægs þáttar í ímynd Íslands. Ástæða er því til þess að fagna samþykkt Alþingis og næsta verkefni er að tryggja framkvæmd hennar.