Það ætti að vera bannað með lögum að frambjóðendur geti fengið flensu í miðri kosningabaráttu. Nú ætti maður að vera úti á akrinum að spjalla við fólk og dreifa upplýsingum um stefnumál, en liggur í stað þess heima með hósta, hita og höfuðpínu.
Og í stað þess að sækja fund í gærkvöldi með mínum ágætu félögum lá ég heima og horfði á foringjana kljást í sjónvarpinu. Reyndar var það svolítið flókið framan af, því um leið reyndi ég að hlusta á endurfluttan útvarpsþátt, þar sem við Bryndís Hlöðversdóttir, Árni Gunnarsson og Árni M. Mathiesen skiptumst á skoðunum um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi og hvað gera þurfi til að bæta hana.
Kannski er flensunni að einhverju leyti um að kenna, en mér fannst sjónvarpsumræðurnar frekar leiðinlegar og þátturinn ekki eins vel heppnaður og Laugarvatnsþáttur Stöðvar 2 fyrir skömmu. Þátttakendur voru þeir sömu í báðum þáttum, nema nú var Kjartan Jónsson mættur til leiks að auki fyrir húmanista. Umræðuefnin voru á ábyrgð spyrlanna sem sáu um að það var hjakkað í ríkisfjármálum, kvótamálum og byggðamálum, en nánast ekki orði eytt á umhverfismálin, að ekki sé nú minnst á jafnrétti kynjanna, heilbrigðismál, menntun og menningu eða launamál. Foringjarnir stóðu sig ekkert illa, en enginn þeirra glansaði heldur.