Á hverju einasta þingi koma fram fjölmörg góð þingmál, bæði frumvörp og tillögur til þingsályktunar. Aðeins hluti þeirra fær afgreiðslu, nokkur eru samþykkt, fáeinum er hafnað, nokkrum er vísað til ríkisstjórnarinnar, en örlög flestra þessara þingmála er að sofna í nefnd, eins og það er kallað. Umfjöllun er þó ekki til einskis, þingmálin eru send til umsagnar fjölmargra aðila, og þær umsagnir nýtast þegar þingmálið er endurskoðað og endurflutt.
Mál frá ríkisstjórninni hafa algjöran forgang í umfjöllun þingsins og finnst einkum þingmönnum stjórnarandstöðu alveg nóg um. Sem dæmi má nefna að af 114 stjórnarfrumvörpum urðu 82 að lögum á því þingi sem nú er senn lokið, en aðeins 13 af 86 frumvörpum þingmanna. Þá fékk ríkisstjórnin samþykktar 9 af 10 tilllögum til þingsályktunar, en þingmenn 18 af 94. Með tilliti til þessa getur undirrituð vel við unað að fá þó eina tillögu samþykkta á þessu þingi.
Hins ber svo að gæta að árangur þingmanna er ekki endilega metinn eftir fjölda þingmála. Hann felst í svo mörgu öðru líka og ekki síst í nefndastarfi, þar sem þingmenn geta með góðri vinnu haft mikil áhrif.