Enn heftir flensan illvíga virka þátttöku í kosningabaráttunni, en þar með gefst líka óvenju gott tækifæri til að hlusta og horfa á hina frambjóðendurna í fjölmiðlunum. Þáttur þeirra Ómars og Ólafs í gærkvöldi um hálendið og Evrópumálin var nokkuð góður og ágæt tilbreyting frá hefðbundinni hanaslagsuppsetningu. Heildarsvipurinn var þó ekki nógu góður, þar sem þátttakendur lentu í misjafnlega góðri innrömmun. En kjósendur hafa vonandi kunnað að túlka orð þeirra og áttað sig á hverjum er best treystandi til að standa vörð um þann fjársjóð sem við eigum á hálendinu.
Eyjabakkarnir eiga enga vörn í Sjálfstæðismönnum eða Framsóknarmönnum sem stefna blint að stórvirkjunum á hálendinu á Norðausturlandi og sjá ekki önnur færi til eflingar atvinnu og mannlífi þar um slóðir. Og þótt fulltrúi Samfylkingarinnar hafi reynt að tala af trúverðugleika í þættinum í gærkvöldi þá tala fulltrúar sama flokks öðrum rómi á Austurlandi og víðar. Vinstrihreyfingin- grænt framboð er í raun eina aflið sem er treystandi til varðstöðu um fjöregg okkar, eini flokkurinn sem er heill og sannur í málflutningi sínum um umhverfismál og náttúruvernd. Þeir sem láta sig þessi mál varða átta sig vonandi á því í tæka tíð.
Þá hef ég hlustað á útsendingu Rásar 1 frá framboðsfundum í tveimur kjördæmum og haft nokkurt gaman af. Það er mjög áberandi, hvað fulltrúar stjórnarflokkanna leggja sig í líma við að sýna samstöðu, enda hverjum manni ljóst að þeir vilja vera saman í liði eftir kosningar. Þó rigga Framsóknarmennirnir sig öðru hverju upp í obbolítinn skæting í garð vina sinna í Sjálfstæðisflokknum eins og til að opna glufu, ef kosningarnar færu kannski svona og svona. En ósköp er það máttlaust og augljóst hvert hugurinn stefnir. Menn koma reyndar ærið misjafnlega fyrir í þessum þáttum, en fæst orð hafa minnsta ábyrgð í því efni, við erum víst næst í Reykjanesinu á mánudagskvöldið!
Og svo byrja kjördæmaþættirnir í Sjónvarpinu á sunnudaginn. Þannig tekur eitt við af öðru í fjölmiðlunum nánast daglega fram að kosningum. Mér verður stundum hugsað til fyrstu kynna minna af kosningabaráttu árið 1983 þegar aðeins var ein útvarpsrás og ein sjónvarpsrás og allir virtust heyra og sjá allt sem boðið var upp á. Nú er ekki vinnandi vegur að henda reiður á öllu saman og hætt við að margt fari fyrir ofan garð og neðan.