Segja má að bein útsending Stöðvar 2 frá stjórnmálafundi á Laugarvatni laugardaginn 20. mars hafi markað upphaf baráttunnar fyrir kosningarnar 8. maí nk.
Þátturinn var prýðilega upp settur og fjörlegur, þótt misjafnlega gengi að halda í skefjum tilhneigingu flokksforingjanna til málalenginga. Virk þátttaka Laugvetninga, sem voru aðallega nemendur, setti svip sinn á fundinn sem auk þess var brotinn upp í nokkra þætti og varð fyrir vikið aldrei þreytandi og langdreginn. Þetta var miklu betri uppsetning hjá Stöð 2 en fyrir síðustu kosningar, þar sem þáttastjórnendur virtust þá hafa meiri áhuga á að skora mörk fyrir sjálfa sig en að laða fram upplýsingar fyrir kjósendur.
Stjórnmálamennirnir komust ágætlega frá sínu á fundinum 20. mars, nema Sverrir var hálfpartinn utangátta og Halldór virtist hreint ekki í sínu besta skapi! Það sló mig nokkuð að sjá aðeins eina konu í þessum leiðtogahópi, en við öðru var ekki að búast, þar sem Kvennalistinn er horfinn af sjónarsviðinu sem sérstakt stjórnmálaafl.
Nokkuð var fjallað um hersetuna og augljóst að atkvæðagreiðsla Alþingis um tillögu Steingríms J. Sigfússonar, Ragnars Arnalds og mína hefur sett þetta mál á dagskrá eftir alllangt hlé, því svipuð umræða kom upp á fundi í Menntaskólanum í Kópavogi þremur dögum fyrr. Í bæði skiptin var nokkuð þjarmað að fulltrúum Samfylkingarinnar og ekki að undra, þar sem hér er auðvitað á ferðinni eitt af þeim málum, sem hafa skilið A-flokkana rækilega að árum saman. Ósannfærandi afstaða og röksemdir þingmanna Samfylkingarinnar hafa vakið furðu margra.
Tillagan var um nefnd fulltrúa allra þingflokka undir forystu fulltrúa utanríkisráðherra sem falið yrði að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Atkvæðagreiðslan á Alþingi 8. mars sl. var um margt mjög merkileg, ekki síst í sögulegu samhengi vegna þess að mál af þessu tagi hafði ekki komið til atkvæða á háttvirtu Alþingi síðan árið 1956. Hitt er ekki síður merkilegt að þingmenn sem hafa þó haldið á lofti því viðhorfi að hér skuli ekki vera erlendur her á friðartímum skyldu ekki treysta sér til að styðja tillögu um endurskoðun þrátt fyrir gerbreytta heimsmynd og gerbreyttar aðstæður í heimshluta okkar.