Ávarp á útifundi á Lækjartorgi:
Góðir fundarmenn!
Við Íslendingar höfum alltaf litið á okkur sem friðelskandi þjóð, sem aldrei hefur farið með vopn á hendur öðrum þjóðum.
Nú erum við komin í stríð.
Í nafni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmi ég harðlega árásir herafla NATO á Júgóslavíu og tek undir kröfu fundarboðenda að þær verði stöðvaðar þegar í stað.
Ég harma stuðning íslenskra stjórnvalda við hernaðaraðgerðirnar í Júgóslavíu og ég harma boð þeirra til Atlantshafsbandalagsins um notkun aðstöðu á Íslandi í tengslum við þessar aðgerðir.
Þar með eru Íslendingar í raun orðnir samsekir um hernaðaríhlutun og ofbeldi.
Við erum orðin samsek um dráp á óbreyttum borgurum, sem ævinlega þjást mest í hernaðarátökum.
Við mótmælum því sérstaklega, að til þessara fráleitu aðgerða er gripið án þess að fjallað hafi verið um þær í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Sameinuðu þjóðirnar hafa ríku hlutverki að gegna í viðleitni til að stuðla að friðsamlegum lausnum og hafa eftirlit með því að vopnahlé og samningar haldi.
Það eru slík samtök, sem eiga að hafa forystu um lausn deilna innan ríkja og á milli ríkja.
Það er ekki verkefni hernaðarbandalags eða sjálfskipaðrar alheimslöggu.
Loftárásir NATO-herja eru aðeins olía á þann eld, sem logar í Kosovo-héraði, þær auka verulega hættuna á að ófriðurinn magnist og breiðist út til nálægra ríkja, þær magna straum flóttafólks og auka á hörmungar fólksins –
– eða eins og stríðshrjáður Kosovo-Albani sagði í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi:
“Vandinn er að þegar NATO gerir loftárásir er þess hefnt á jörðu niðri”.
Það er einmitt það sem er að gerast nú.
Og við erum samsek.
Loftárásirnar eru í raun óskastaða Milosevics,
kjöraðstæður til þess að þjappa Serbum saman í þeirri fullvissu að þeir séu hin raunverulegu fórnarlömb.
Og enginn veit, hvað við tekur, síst af öllu herforingjar NATO.
Vandamálin í Kososvo-héraði eiga sér rætur langt aftur í tímann, og þau verða ekki leyst með sprengjuregni NATO-herja, sem er fyrst og fremst í mun að skapa sér hlutverk og mikilvægi í augum umheimsins.
Herforingjar NATO vilja fyrir hvern mun sýna hernaðarmátt risaeðlunnar, sem lá við útrýmingu, þegar kalda stríðið gufaði upp og þeir misstu nöldrið sitt, misstu Rússagrýluna, misstu tilganginn og tilefni til að nota vopnin sín, sem hergagnaverksmiðjurnar þurfa að fá ástæðu til að framleiða.
Eftir áralanga leit að tilgangi sínum við breyttar aðstæður í samfélagi þjóðanna hefur NATO nú ákveðið, að það sé eftir allt saman hernaðarbandalag og árásaraðili, en ekki friðarhreyfing, eins og stuðningsmenn þess hér á Íslandi hafa haldið á lofti.
Þessir atburðir hljóta að vera þeim áfall, sem hafa rökstutt áframhaldandi þátttöku í hernaðarbandalagi á þeim forsendum að það hafi breyst í friðarhreyfingu.
Góðir fundarmenn!
Íslensk þjóð stendur nú á tímamótum.
Þessi friðsama þjóð, sem aldrei hefur borið vopn á aðrar þjóðir, stendur nú andspænis því að bera ábyrgð á grimmilegum, heimskulegum og tilgangslausum loftárásum hernaðarbandalags, sem skilur ekki söguna og sér allt í svart/hvítu.
Við erum samsek vegna þess að við erum hluti af þessu hernaðarbandalagi, sem nú heldur upp á hálfrar aldar afmæli sitt með loftárásum á Júgóslavíu.
Aðild að hernaðarbandalagi og vera erlends hers á landi okkar er bæði ónauðsynleg og óviðunandi með öllu.
Íslendingar eiga að vera boðberar friðar og sátta og friðsamlegra lausna á alþjóðavettvangi, en ekki að gerast samsekir um hernaðaríhlutun og ofbeldi.
Við mótmælum þessum grimmúðlegu aðgerðum NATO og krefjumst þess að loftárásunum verði hætt þegar í stað og leitað raunhæfra friðsamlegra lausna á því ófremdarástandi sem ríkir í Kosovo.
Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar, að komandi öld verði öld friðar og samvinnu þjóða á milli um það að skapa mannkyninu lífvænleg skilyrði á þessari jörð.