Alþingi unga fólksins

Það var virkilega gaman að fylgjast með unga fólkinu, sem vermdi sæti okkar alþingismanna dagana 29. – 31. mars sl. Þarna var nokkurn veginn jafnt af báðum kynjum og mikil þátttaka í umræðum. Þau fluttu stuttar og vafningalausar ræður, komu sér beint að efninu og lögðu sig fram um að fara að þingsköpum, þótt sum orðin væru þeim stirð í munni. Þau ræddu af þó nokkrum hita um réttindamál skólafólks og framtíðarsýn í umhverfismálum og sýndu mikla samstöðu um málefni flóttafólks.

Ég spjallaði við nokkur úr þessum hópi. Þau voru undantekningarlaust mjög ánægð með þessa reynslu, sem kom þeim um margt á óvart, þar sem þau höfðu í rauninni ekki ýkja skýra mynd af starfsemi þingsins. Þarna fékk ungt fólk úr öllum kjördæmum landsins tækifæri til að máta sig inn í þennan sérstaka ramma, sem er mörgum ekki annað en myndir í sjónvarpi.

Að mínu mati er þarna fundin góð leið til að efla þekkingu og skilning á starfi Alþingis og tengja það betur almenningi. Alþingi unga fólksins þyrfti að verða fastur liður í samskiptum Alþingis og framhaldsskóla landsins, sem ætti sinn sess t.d. í september eða í þinghléi í janúar. Þessi fyrsta tilraun tókst mjög vel, og ekki er ólíklegt að þarna hafi vaknað sá áhugi á stjórnmálastarfi, sem muni skila okkur þingmönnum á næstu öld!