NÓVEMBERDAGAR 2012
15.11. FIMMTUDAGUR
Sundlaugin okkar á Seltjarnarnesi er nánast alltaf hlý og góð, hvernig sem viðrar. En rigning og hvassviðri er ekki alltaf jafn notalegt. Það var kalt í morgun. Í dag mældist mestur hiti um 4°.
Það gladdi mig að sjá músarrindilinn í dag, vonandi er það sá sami sem var svo fjörugur síðasta vetur.
16.11. FÖSTUDAGUR
Ekki var mikið um hlýindin í dag. Hitinn fór ekki yfir frostmarkið og komið yfir -2° að kvöldinu. En frostið er meira víða annars staðar.
17.11. LAUGARDAGUR
Ekki hlýnar hér, en veðrið er svo sem sæmilegt. Verra er það fyrir norðan, hvassviðri, mikil snjókoma, víða ófært, bílar fastir í fönn og snjóflóð hafa fallið.
18.11. SUNNUDAGUR
Fallegt er út að líta. Himinninn er bjartur og sólin skín, en vindurinn er nokkuð hvass. Hlýrra varð ekki en nálægt frostmarki. Fyrir norðan og austan kyngir snjónum niður.
19.11. MÁNUDAGUR
Fallegur dagur í dag, en ekki er hann hlýr frekar venju. Frostið var mest -2°. Tungl og stjörnur spóka sig á himninum í kvöldkulinu.
Enn eru björgunarsveitir á varðbergi vegna hugsanlegra snjóflóða, og enn kyngir snjónum niður fyrir norðan.
20.11. ÞRIÐJUDAGUR
Veðrið var sæmilegt í dag, en kalt. Hiti fór upp í 1°. Enn snjóar fyrir norðan.
“Hreint út sagt” nefnist bókin sem ég var að ljúka. Svavar Gestsson segir þar ævisögu sína og sparar ekki orð né upplýsingar. Margt er þar athyglisvert, sumt kunnuglegt, en reyndar margt sem kom mér sannarlega á óvart. Við kvennalistakonur vorum talsvert út af fyrir okkur, sóttumst ekki eftir aðstoð né kennslu þessi ár okkar á Alþingi. Árin þau, 1983-1999, vorum við satt að segja önnum kafnar við okkar störf og á þann hátt sem við töldum réttast. Vorum a.m.k. ekki mjög forvitnar um það hvernig aðrir höguðu sér. Ég sé ýmislegt í bók Svavars þar sem upplýst er hvernig tekið var á stjórnmálunum, í hörðum deilum og oftar en ekki í pukri. Vafalaust er svo enn. Slíkt minnir á köflum sem lesa mátti í ævisögu Gunnars Thoroddsen. Í bók Svavars hafði ég mest gaman af þar sem segir frá æsku hans, foreldrum hans og systkinum og því lífi sem þar var lifað. Bókin er vel skrifuð, harla lífleg og skemmtileg.
21.11. MIÐVIKUDAGUR
Kalt og hvasst sem oftar.
22.11. FIMMTUDAGUR
Ágætt veður í dag. Svolitil rigning, sem kom sér bara vel. Hitinn mældist heil 2°. Og máninn er glaðhlakkalegur hér ofan fjalla. Kannski er hann svona kátur að sjá allt jólaskrautið sem nú lýsir upp vítt og breytt um landið.
23.11. FÖSTUDAGUR
Þokkalegt veður. Mestur hiti í dag mældist 3°. Lítilsháttar rigning.