Spenna og óhugnaður

NÓVEMBERDAGAR 2012

8.11. FIMMTUDAGUR

Mestur hiti dagsins var sagður 4°. Það dugði lítið gagnvart kulda og hvassviðri.

9.11. FÖSTUDAGUR

Enn er hvasst og kalt. Esjan er fannhvít nær niður að sjó. Mestur hiti 3° í dag. Veðrið fer versnandi og verður svo til sunnudagsins.

10.11. LAUGARDAGUR

Ónotalegt veður, talsvert hvasst og -2 frost að deginum. Sólin var reyndar svo almennileg að skína í svolítin tíma. Verra er veðrið víða annars staðar. Norðanstormur og snjókoma mest fyrir norðan og erfið færð, sums staðar algjör ófærð.

11.11, SUNNUDAGUR

Sæmilegt veður fram eftir degi, en smám saman herti vind. Mestur hiti mældist 4°.

Um kvöldið héldu Skildingarnir veislu í tilefni af 15 ára afmæli Auðar Pálmadóttur. Afmældið er reyndar 12. nóvember, þ.e. á morgun, en hentugra að nota sunnudaginn. Trakteringar voru að venju góðar og alltaf jafn gaman að hitta fólkið. Auður er dugleg í fimleikum, hefur stundað það í mörg ár. Þessa dagana er hún svolítið hölt eftir miklar listir í fimleikum, en henni batnar vonandi fyrr en varir.

12.11. MÁNUDAGUR

Vindurinn blés mikinn í nótt, en var þó ekki eins slæmur og hafði verið búist við. Talsvert rigndi í dag. Mestur hiti mældist 6°.

13.11. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður í dag. Mestur hiti mældist 5°.

Jussi Adler-Olsen þykir drjúgur með glæpasögurnar, og ekki neita ég því. Flöskuskeyti frá P. heitir nýjasta sagan, sem ég var að ljúka við. Mögnuð og afar spennandi saga. Stundum svo óhugnanleg að mig hryllir við. En sagan er góð.

14.11. MIÐVIKUDAGUR

Rigningin stjórnaði veðrinu í dag. Mestur hiti mældist 5°.

Breki Hrafn er tólf ára í dag. Dóra, Sindri og Ómar ætluðu að borða með afmælisbarninu á uppáhaldsstaðnum, Ítalíu. En það verður að bíða. Pestir af ýmsu tagi spilla hvenær sem þeim þóknast. Breki tók því með ró og spekt og skemmti sér við það sem hann fékk frá sinum nánustu.