NÓVEMBERDAGAR 2012
1.11. FIMMTUDAGUR
Hvassviðrið hélt manni vakandi í nótt, en var ögn hógværari um miðjan daginn. Og ekki nóg með það, sjálf sólin skein! En hitinn mældist aðeins við frostmark þennan daginn. Hvassviðrið magnaðist með kvöldinu.
Sólrún og Þórður komu til okkar að spila bridds í kvöld. Fórum rólega í það, því mörgu þurfti að segja frá.
2.11. FÖSTUDAGUR
Enn meira hvassviðri vakti mig nokkrum sinnum í nótt, og það versnaði fram eftir degi. Mikið gekk á í norðurhluta Seltjarnarnes og sama mátti segja um lætin í Grafarvogi þar sem Pétur og Marcela búa. Sjórinn rauk og þeytti gusuganginum upp á götur. Ekki beint notalegur dagur, en við lentum ekki í neinum vandræðum.
Björgunarmenn höfðu mikið að gera á höfuðborgarsvæðinu, þakplötur fuku, gámar fuku, og margt þeyttist um sem varð að bjarga. Allmargir urðu fyrir slysum í óveðrinu, flestir sem hreinlega tókust á loft, urðu fyrir beinbrotum o.s.frv.
3.11. LAUGARDAGUR
Óveðrið hefur farið minnkandi smám saman, en ekki er fram undan nein blíða. Það blés mikinn um nóttina og hélt sér við það fram eftir öllum degi, en skánaði um kvöldið.
4.11. SUNNUDAGUR
Loks var friðsamlegt um nóttina, og mikið var nú fallegt út að líta að morgni. Heiðríkt var á himninum, vindurinn var til friðs, og sólin skein fram eftir degi. Mestur hiti mældist 3°. En nú eru öll fallegu blómin mín horfin.
5.11. MÁNUDAGUR
Rigning réði veðrinu í dag. Hiti mældist mestur 7°, og veðrið var í rauninni ágætt.
Og nú lauk ég nýrri bók eftir Henning Mankell. Minning um óhreinan engil, heitir sú bók, en engillinn, hún Hanna, átti mörg nöfn. Hún þvældist víða og komst í furðulegar aðstæður, sem hún átti bágt með að skilja og ráða við. Mjög sérstök bók, sem mér þótti skemmtileg aflestrar.
6.11. ÞRIÐJUDAGUR
Nokkuð hvasst veður í dag og hvessti verulega nær kvöldinu. Það rigndi hressilega mestallan daginn. Rigningarrokið gerði okkur það gagn að þvo gluggana og bílana, sem voru þaktar salti eftir óveðrið mikla, svo að sást ekki út. Hiti mældist mestur 5° í dag.
7.11. MIÐVIKUDAGUR
Sæmilegt veður í dag, en hitinn náði mest aðeins 3 stig örstutta stund. Gluggaþvottur rigningameistarans hefði mátt vera betri, en nú sjáum við altént sæmilega út um gluggana.