OKTÓBERDAGAR 2012
27.10. LAUGARDAGUR
Veðrið var heldur hryssingslegt í dag. Sólin faldi sig og öðru hverju rigndi. Mestur hiti mældist 3°. Og nú er máninn í fullum skrúða að kvöldi.
Ekki er alltaf jafn ánæglulegt að lesa fréttablöð og stundum bara hundleiðinlegt. Var að lesa Fréttatímann í dag og fann þar reyndar margt gott. Grein Jóns Kalman Stefánssonar rithöfundar gladdi mest. “Alþingi – Íslands óhamingja?” spyr sig Jón í upphafi greinar. Og í greinarlok segir hann: “Þingmaður sem hundsar vilja þjóðar á ekki heima á alþingi Íslendinga”. Honum og mörgum öðrum blöskrar framganga margra þingmanna. Þessa grein ættu sem flestir að lesa – og þingmenn sem allra flestir.
28.10. SUNNUDAGUR
Fagur var dagurinn, heiðríkur himinn og sólskin. Hitinn mældist mest 3°, en vindur var lítill. Nær kvöldi lokuðu skýin fyrir heiðríkjuna.
29.10. MÁNUDAGUR
Þokkalegt veður í dag, en lítið sást til sólar. Vindur var lítill. Mestur hiti mældist 5°.
Fátt er betra en að lesa bækur, þótt ekki séu allar jafn góðar. Var að ljúka nýjustu bók Einars Kárasonar, þriðju Sturlungasögu hans. Óvinafagnaður var sú fyrsta, önnur Ofsi, og nú er það Skáldið, sem sögð er síðasta Sturlungasaga Einars. Skáldið Sturla Þórðarson er aðalpersónan, en margir koma við sögu eins og nærri má geta. Ekki vantar manndrápin og illskuna, en saga Einars og Skáldsins er harla góð.
30.10. ÞRIÐJUDAGUR
Í dag var nokkuð hvasst og kalt. Það snjóaði lítilsháttar hér, en fyrir norðan og víðar snjóaði talsvert mikið. Mestur hiti mældist 2°.
31.10. MIÐVIKUDAGUR
Ekki get ég lofað veðrið þennan daginn hér, en það verður miklu verra næstu daga samkvænt vegurfræðingum. Verst er fyrir norðan og austan. Hér var talsvert hvasst, en það er nú smámál miðað við rokið og snjóinn aðallega fyrir norðan og austan. Varað er fyrir versnandi veðri um landið norðaustanvert, miklum vindi, snjókomu og skafrenningi.