Skjáftar fyrir Norðan

OKTÓBERDAGAR 2012

20.10. LAUGARDAGUR

Fallegur dagur. Lítill vindur. Heiðríkt og sólskin. Mestur hiti 5°.

Kátt var í koti með “börnum” okkar og barnabörnum fram eftir hádegi. Þetta var glaðlegt afmælispartí og mikið gott á borðum. Yndislegur dagur.

Í dag er kosið um þjóðaratkvæði sem stjórnlagaráð vann að um hálft árið. Það hefur kostað deilur og þras. Spennandi að vita hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni.

21.10. SUNNUDAGUR

Ágætt veður í dag, sólríkt og lítill vindur. Mestur hiti 5°.

Í nótt urðu ótal jarðskjálftar norður af Siglufirði, sá stærsti 5,6 að stærð. Skjálftar fundust víða, m.a. í Reykjadal. Og enn skjálfar öðru hverju fyrir norðan.

Jónas kom mér aldeilis á óvart á afmælinu og færði mér 1Pad, sem mörgum þykir það besta í þessum bransa. Ég er nú orðin svo vön gömlu tölvunni að nú þarf að læra ýmislegt nútímalegt. Kristján þekkir þetta og hjálpar mér við að ná áttum. Spennandi!

Þjóðaratkvæðagreiðslan tókst nokkuð vel, en sjálfstæðismenn eru fúlir. Er nú eftir að vita hvort þingmenn taka mark á kjósendum.

22.10. MÁNUDAGUR

Veðurfræðingar spáðu rigningu hér í allan dag, en hér á Seltjarnarnesi sáum við ekki dropa af himni. Mestur hiti mældist 5°.

Ég glímdi svolítið við 1Paddinn í dag og hef gaman af, en þegar ég þarf að gera eitthvað í snarheitum gríp ég í gömlu tölvuna.

23.10. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður í dag, stillt, en lítið sást til sólar. Mestur hiti mældist 5°.

24.10. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður. Mestur hiti 6°.

Í dag minnumst við Kvennafrídagsins 24. október árið 1975. Ég hafði ekkert endilega ætlað mér að taka þátt í kvennafríinu, sem svo var kallað. En eitthvað hrærðist innra með mér sem varð til þess að ég stökk af stað og hentist upp í strætó til að komast niður í miðbæinn og sjá hvað konurnar væru að brölta. Strætisvagninn þyngdist æ meira þegar konurnar fylltu vagninn á hverri stoppistöð, glaðværar og kátar. Það var stórkostleg að koma niður á Lækjartorg, þar sem fjöldi kvenna fyllti torgið og göturnar umhverfis. Stemningin var sérstök, skemmtilegar ræður og söngur. Gleðin var mikil og hvatningin uppörvandi. Þetta var ógleymanlegur dagur.

25.10. FIMMTUDAGUR

Veðrið hefur verið heldur þungbúið í dag og öðru hverju rigndi. Mestur hiti mældist 4°.

Íslenska kvennalandsliðið keppti við kvennalandslið Úkraínu á Laugardalsvellinum í kvöld. Þær fengu svolitla rigningu á sig, en þessar dugnaðar konur létu það ekki trufla sig. Okkar konur sigruðu Úkraínu með glæsibrag og komast þar með í lokakeppni Evrópumótsins, sem verður í Svíþjóð næsta sumar. Gaman að sjá hvað áhorfendur voru margir í þetta skipti. Það sannar væntanlega að sífellt fleiri kunna að meta snilli kvennanna!

26.10. FÖSTUDAGUR

Sæmilegt veður, en mestur hiti var aðeins 3°.